154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:33]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þetta mál vekur auðvitað upp margar spurningar og mikla umræðu sem við getum vonandi átt hér. Mig langar til að beina tveimur spurningum til hæstv. ráðherra eftir ræðu hennar. Samkvæmt skýrum fyrirmælum Mannréttindadómstóls Evrópu er forsenda fyrir heimildum lögreglu til slíkra inngripa í friðhelgi einkalífs fólks sem felst í eftirliti með einstaklingum án þeirra vitundar að fyrir hendi sé virkt sjálfstætt eftirlit sem er óháð framkvæmdarvaldinu. Hér er verið að leggja til að lögfestar verði heimildir til að fylgjast með einstaklingum sem hvorki hafa brotið af sér né eru grunaðir um að hafa brotið af sér. Eina eftirlitið með störfum lögreglu sem er óháð framkvæmdarvaldinu í dag, nefnd um eftirlit með lögreglu, hefur lýst sér sjálfri sem póstflokkunarstöð auk þess sem hún hefur vakið athygli á því að heimildir og völd nefndarinnar veiti ekki þau tæki sem hún þarf til að hafa nauðsynlegt eftirlit og hefur kvartað undan því að lögreglan láti nefndina ekki fá þau gögn sem hún þarf til að sinna sínum störfum. (Forseti hringir.)

Í öllum þeim ríkjum sem við berum okkur saman við er mjög virkt sjálfstætt eftirlit með lögreglu. Mig langar því til að spyrja hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Er einhver vinna hafin í ráðuneytinu við að bæta úr alvarlegum skorti á eftirliti með störfum lögreglu sem (Forseti hringir.) líklega gerir það að verkum að tillögur þær sem lagðar eru til í frumvarpinu standist ekki stjórnarskrá?

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill áminna þingmenn um að virða ræðutímann sem er ein mínúta.)